Skeiðsfossvirkjun

Uppsett afl
4,8 MW
Meðalrennsli á sek.
10,6 M3
Virkjunin opnaði
1945
Staðsetning
Norðurland

Skeiðsfossvirkjun

Skeiðsfossvirkjun var reist í því skyni að mæta ört vaxandi raforkuþörf á Siglufirði á miðri 20. öld, einkum vegna atvinnuuppbyggingar og iðnaðarstarfsemi . Á þessum tíma jókst rafmagnsnotkun bæði í bæjum og dreifbýli, og orðið var ljóst að eldri lausnir svo sem dísilvélar og smávirkjanir myndu ekki duga til framtíðar.

Rafveita Siglufjarðar hóf undirbúning framkvæmda í upphafi fjórða áratugarins og virkjunin var formlega tekin í notkun árið 1945. Hún varð helsta stoðin undir raforkunotkun Siglufirðinga og gegndi lykilhlutverki í örum vexti síldariðnaðarins á Siglufirði

Virkjunin var einnig liður í stefnumótun stjórnvalda um að draga úr notkun á innfluttum orkugjöfum og nýta þess í stað innlent vatnsafl til að efla sjálfbærni og orkuöryggi landsins. Í því ljósi var Skeiðsfossvirkjun hluti af stærri framtíðarsýn þ.e. að treysta búsetu, efla atvinnulíf og tryggja íslenskum byggðum hagfelldari lífsskilyrði.

Skeiðsfossvirkjun og síldarævintýrið

Skeiðsfossvirkjun hafði afgerandi áhrif á þróun síldariðnaðarins á Siglufirði, sem á fjórða og fimmta áratug 20. aldar umbreyttist í eitt stærsta atvinnu- og framleiðsluumhverfi landsins. Með tilkomu virkjunarinnar árið 1945 opnuðust nýir möguleikar fyrir iðnvæðingu bæjarins og rafmagn varð lykillinn að aukinni afkastagetu og skilvirkni.

Fram að þeim tíma hafði síldariðnaðurinn ítrekað glímt við orkuskort, þar sem framleiðsla lýsis og mjöls, og flóknar vinnslulínur kröfðust stöðugrar og öruggrar raforku. Skeiðsfossvirkjun leysti úr þessari flöskuhálsstöðu, og gerði m.a. kleift að stækka og nútímavæða verksmiðjur, stytta vinnslutíma og draga úr sóun hráefnis.

Orkuframleiðslan frá Skeiðsfossi tryggði þannig samkeppnishæfni Siglufjarðar á alþjóðlegum síldarmarkaði og varð eitt af lykilskrefunum sem héldu síldarævintýrinu gangandi á sínum gullaldarárum. Virkjunin var ekki einungis tákn nýsköpunar heldur líka hagnýtt skref í átt að sjálfbærri uppbyggingu atvinnulífs á norðurlandi.

Fljótaá á Norð­ur­landi

Fljótaá á upptök í fjöllum norð­an­vert á Trölla­skaga, einkum sunnan við Lágheiði. Áin rennur í gegnum Stíflu, sérstæðan dal sem er 2 km að lengd og 1 km að breidd. Dals­mynnið að norð­an­verðu er girt háum hólum, Stíflu­hólum, og hefur áin brotið sér leið í gegnum hólana á 1 km kafla. Þaðan rennur hún í Mikla­vatn og síðan út í Fljótavík. Fljótaá er dragá og er því vatns­magn hennar breyti­legt eftir árstíðum. Vatna­svið mun vera um 110 km2.

Sigl­firð­ingar fengu snemma á öldinni auga­stað á virkjun Fljótaár. Árið 1935 var bæjar­stjórn Siglu­fjarðar heim­ilað að reisa og reka raforku­stöð við Fljótaá og leggja háspennu­taugar til Siglu­fjarðar.

Skeiðs­foss­virkjun I

Fram­kvæmdir hófust sumarið 1942 og var Fljótaá stífluð í gljúfrum um 300 metrum frá þeim stað er hún rennur inn í Stíflu­hóla. Í stöðv­ar­húsinu var komið fyrir 2.350 hest­afla (1,8 MW) Francis-hverfli og gert ráð fyrir annarri sams konar samstæðu er gæti tengst sömu aðrennsl­is­pípu. Tölu­verðar tafir urðu vegna erfiðra aðdrátta í heims­styrj­öld­inni og straumi var hleypt frá Skeiðs­foss­virkjun til Siglu­fjarðar 29. mars 1945. Seinni véla­sam­stæðan var ekki sett upp fyrr en tæpum 10 árum síðar eða í ágúst 1954. Var þá saman­lagt vélaafl 3,2 mega­vött.

Skeiðs­foss­virkjun II

Á árunum eftir 1960 var farið að huga að frekari virkj­un­ar­fram­kvæmdum við Fljótaá. Var ákveðið að reisa 1,7 MW virkjun við Stóru-Þverá. Vinna við hina nýju virkjun hófst 1974. Reist var tuttugu metra löng yfir­falls­stífla með fjórum flóð­gáttum, þremur lokum og laxa­stiga. Út frá henni í báðar áttir voru jarð­stíflur og varn­ar­garður að aust­an­verðu. Þá mynd­aðist lón og frá því var grafinn eins kíló­metera langur skurður að inntakslóni. Frá inntaki liggur 520 metra löng stein­steypt pípa, tæpir tveir metrar í þvermál, að átján metra háum stein­steyptum jöfn­un­ar­turni. Frá honum liggur 85 metra löng þrýsti­vatns­pípa úr stáli og er hún tveir metrar í þvermál. Fallhæð er því rúmir þrjátíu metrar. 20. október 1976 tók Skeiðs­foss­virkjun II form­lega til starfa.

Rarik tekur við

Undir lok ársins 1990 skipaði bæjar­stjórn Siglu­fjarðar nefnd til viðræðna við Rafmagns­veit­urnar um sölu á virkj­un­inni, rafveit­unni og jafnvel hita­veit­unni. Samn­ingur um kaup RARIK á Rafveitu og Hita­veitu Siglu­fjarðar var undir­rit­aður 7. apríl 1991. Eign­uðust Rafmagns­veit­urnar Skeiðs­foss­virkj­anir báðar og allt orku­veitu­kerfi á Siglu­firði.

Eftir að RARIK tók við rekstr­inum var ráðist í umfangs­miklar endur­bætur. Nýjum botn­loka var komið fyrir í stíflu 1994, inntak lagfært, ristar endur­nýj­aðar, svo og rafkerfi. Til þess þurfti að tæma forða­lónið. Samhliða þessu var gangráður og rafall í véla­sam­stæðu endur­nýj­aður ásamt ýmsum þétt­ingum og fóðr­ingum fyrir vatns­vélina. Árið 1995 var unnið að umfangs­miklum endur­bótum á Skeiðs­foss­virkjun II, gerðar voru sams konar lagfær­ingar á véla­sam­stæðu og vatnsvél og í Skeiðs­foss­virkjun árið áður. Árið 1996 var Skeiðs­foss­virkjun búin undir fjar­gæslu og fjar­stýr­ingu.

Uppsett afl beggja virkja er 4,8 MW.

Heimildir

  1. Saga Rafveitu Akureyrar 1922–1992, í gegnum vatnsidnadur.net
  2. Skýrsla Orkustofnunar (1995) um þróun vatnsaflsvirkjana á Norðurlandi.
  3. Síldarminjasafnið á Siglufirði – sýningin Orkan í þjónustu síldarinnar - frásagnir og sýningar um rafvæðingu síldariðnaðarins. https://sild.is
  4. Guðmundur Jónsson o.fl., Orkustefna Íslands 1904–2004 (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2004).
  5. Alþingistíðindi (1944–1945), ræður um orkupólitík og eignarnám vegna vatnsaflsvirkjana
  6. Saga raforkumála á Íslandi, Jónas Elíasson o.fl.