Viðskiptaskilmálar

Hleðsluáskrift Orkusölunnar

1. Almennt

a) Hér á eftir fara almennir viðskiptaskilmálar Orkusölunnar ehf. („Orkusalan“), kt. 560306-1130, Urðarhvarfi 8, 203 Kópavogi, sem gilda skulu um notkun heimila, fyrirtækja og stofnana á Hleðsluáskrift Orkusölunnar.

b) Hleðsluáskrift Orkusölunnar (hleðsluáskrift, hleðsluáskriftin) er þjónusta sem samanstendur af aðgangi að hleðslustöð fyrir raftengjanlegar bifreiðar, ásamt allri annarri þjónustu sem Hleðsluáskrift Orkusölunnar felur í sér, svo sem samskiptabúnað ef þörf krefur, gegn greiðslu áskriftargjalds. Innifalið í áskriftargjaldi hleðsluáskriftar eru afnot af hleðslustöð sem afhent er viðskiptavini, allur samskiptakostnaður hleðslustöðvar við þjónustukerfi, þar sem það á við, sem og allt viðhald hennar vegna eðlilegrar notkunar.

c) Þegar viðskiptavinur gerir áskriftarsamning við Orkusöluna um hleðsluáskrift, hvort sem slíkur samningur er gerður skriflega eða með rafrænum hætti, þá samþykkir viðskiptavinur jafnframt að hafa kynnt sér og samþykkt viðskiptaskilmála þessa og að þeir teljist á hverjum tíma hluti af áskriftarsamningi viðskiptavinar við Orkusöluna.

d) Orkusalan áskilur sér rétt til að gera breytingar á skilmálum þessum og eru slíkar breytingar kynntar á vefsíðunni www.orkusalan.is.

e) Viðskiptavinur er rétthafi Hleðsluáskriftar Orkusölunnar og ber ábyrgð á notkun hennar skv. skilmálum þessum.

f) Viðskiptavinur ber ábyrgð á greiðslum til Orkusölunnar vegna notkunar á hleðsluáskrift skv. skilmálum í kafla 3.

2. Uppsetning og notkun

a) Viðskiptavinur er ábyrgur fyrir allri notkun á Hleðsluáskrift Orkusölunnar, þ.m.t. notkun á þeim endabúnaði sem lagður er til. Ef í ljós kemur að viðskiptavinur misnotar hleðsluáskriftina, t.d. á þann hátt að notkun varði við lög eða hafi áhrif á notkun annarra viðskiptavina getur Orkusalan lokað á notkun hleðsluáskriftar fyrirvaralaust, um stundarsakir eða til frambúðar.

b) Orkusalan skilar af sér hleðslustöðvum tilbúnum til uppsetningar nema um annað sé sérstaklega samið. Sjái Orkusalan eða aðili á vegum Orkusölunnar um uppsetningu fer um kostnaðinn eftir gildandi verðskrá Orkusölunnar hverju sinni fyrir slíka þjónustu.

c) Viðskiptavinur skuldbindur sig til að bera ábyrgð á að innviðir samrýmist leiðbeiningum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, áður en uppsetning hleðslustöðva er framkvæmd. Allt viðhald og viðgerðir á grunnneti og varnarbúnaði er á ábyrgð viðskiptavinar, enda er það eign hans.

d) Hleðslustöðvar eru í eigu Orkusölunnar, en lagnir að hleðslustöð eru á ábyrgð og í eigu viðskiptavinar.

e) Orkusölunni er heimilt að taka ljósmyndir af frágangi eða uppsetningu að framkvæmdavinnu lokinni.

f) Orkusalan ber ekki ábyrgð á tjóni sem kann að verða rakið til sambandsleysis, rofs á fjarskiptum eða annarra truflana sem kunna að verða á rekstri fjarskiptakerfis Orkusölunnar eða þjónustuaðila, hvort sem slíkt má rekja til ljósleiðarabilana, bilana í netbúnaði eða annarra ástæðna, nema slíkt verði rakið til mistaka af hálfu starfsfólks Orkusölunnar.

g) Viðskiptavinur ber ábyrgð á og skal fara vel með allan búnað sem hann hefur til afnota og er í eigu Orkusölunnar. Viðskiptavinur er bótaskyldur skemmist búnaður eða glatist hvort sem það verður rakið til gáleysis eða ásetnings af hálfu viðskiptavinar, notanda á hans vegum eða þriðja aðila. Verði búnaður fyrir skemmdum eða hann glatast ber viðskiptavini að tilkynna Orkusölunni um það tafarlaust. Orkusölunni er heimilt að innheimta kostnað vegna viðhalds og viðgerða á hleðslustöð sem stafar af rangri eða slæmri meðferð hennar. Einungis aðilum á vegum Orkusölunnar er heimilt að sinna viðgerð og viðhaldi á hleðslustöð.

h) Orkusalan ber ekki ábyrgð á mögulegum útlitslegum lýtum eða skemmdum sem kunna að verða á eignum húsráðenda ef hleðslustöð eða lagnir eru fjarlægðar eða skipt út, eftir að hleðslustöð er sett upp.

i) Ef viðskiptavinur óskar eftir að hleðslustöð sé færð og sett upp á nýju heimilisfangi, þá ber honum skylda að tilkynna Orkusölunni um flutning. Kostnaður við uppsetningu á nýjum stað er á ábyrgð viðskiptavinar. Sjái Orkusalan um uppsetningu á nýjum stað fer um kostnaðinn eftir gildandi verðskrá hverju sinni fyrir slíka þjónustu.

j) Orkusalan áskilur sér rétt til að tengjast hleðslustöð viðskiptavinar þar sem það er hægt í þeim tilgangi að endurræsa, bilanagreina, veita aðstoð og/eða til þess að uppfæra eða stilla hana án samráðs við viðskiptavin.

k) Orkusalan ber ekki ábyrgð á þjónusturofi en leitast þó við að koma þjónustu á að nýju á eins skömmum tíma og unnt er. Ef viðskiptavinur er án þjónustu vegna bilunar í lengri tíma en 3 daga og ástæðu þess má ekki rekja til athafna af hans hálfu, getur hann krafist niðurfellingar áskriftargjalds í réttu hlutfalli við þann tíma er þjónusturof varir.

l) Orkusalan tekur á móti bilunarboðum frá hleðslustöð þar sem því verður við komið og tilkynnir viðskiptavin um bilun eins fljótt og auðið er.

m) Verði viðskiptavinur var við bilun eða galla í hleðslustöð skal hann jafnframt upplýsa Orkusöluna um það tafarlaust, sbr. nánar leiðbeiningar um slíkar tilkynningar á heimasíðu Orkusölunnar, orkusalan.is

n) Orkusalan ber ekki ábyrgð á frávikum sem varða öryggismál, svo sem eldvarnar- eða rafmagnsöryggi, sem uppsettar stöðvar viðskiptavina kunna að tengjast.

3. Greiðslur

a) Verðskrá Hleðsluáskriftar Orkusölunnar er birt á www.orkusalan.is og fer um verð samkvæmt gildandi verðskrá hverju sinni. Viðskiptavinur greiðir mánaðarlegt áskriftargjald fyrir notkun á Hleðsluáskrift Orkusölunnar. Gjaldið miðast við fyrsta dag næsta mánaðar sem þjónustan virkjast í kerfum Orkusölunnar. Gjaldið er greitt fyrirfram. Allar breytingar á verðskrá hleðsluáskriftar eru kynntar viðskiptavinum með að minnsta kosti eins mánaðar fyrirvara á vefsíðu Orkusölunnar www.orkusalan.is.

b) Viðskiptavinur greiðir fastagjald raforkumælis, en um það fer eftir gildandi gjaldskrá viðkomandi dreifiveitu hverju sinni, sama hvort raforkumælir er skráður á viðskiptavin eða Orkusöluna. Ef raforkumælir er skráður á Orkusöluna mun Orkusalan rukka fastagjald hans á 12 mánaða fresti eftir á.

c) Ef annar búnaður en hleðslustöð er tengdur raforkumæli sem skráður er á Orkusöluna, áskilur Orkusalan sér rétt til að rukka fyrir þá umframraforkunotkun eftir á.

d) Fjölbýli – viðskiptavinur skuldbindur sig til að greiða fyrir notkun, í samræmi við gildandi verðskrá Orkusölunnar fyrir rafhleðslur á hverjum tíma. Notkun er sú orka (kWh) sem viðeigandi hleðslustöð mælir. Viðskiptavinur og/eða notendur á hans vegum skulu auðkenna sig fyrir notkun á hleðslustöð með Orkusölulykli eða annarri viðurkenndri auðkenningu frá Orkusölunni og gilda viðeigandi skilmálar þar um. Raforkumælir fjölbýliskerfis er skráður á Orkusöluna hjá viðkomandi dreifiveitu og greiðir Orkusalan fastagjald til dreifiveitu af honum, en rukkar viðskiptavin um fastagjaldið og umframnotkun árlega.

Sérbýli – Viðskiptavinur greiðir fyrir notkun skv. mælingu raforkumælis ásamt annarri notkun, dreifingu, flutningi og jöfnunargjaldi samkvæmt samningi við raforkusala og dreifiveitu. Orkusalan rukkar ekki fyrir notkun í gegnum hleðslustöð í tilfelli sérbýlis. Viðskiptavinur greiðir tilkynningar- og greiðslukostnað fyrir rafrænar tilkynningar, skuldfærslur á greiðslukort eða beingreiðslur, skv. gildandi verðskrá Orkusölunnar hverju sinni. Viðskiptavinur getur óskað sérstaklega eftir útgefnum greiðsluseðli og greiðist þá svokallað seðilgjald, skv. gildandi verðskrá Orkusölunnar hverju sinni.

Fyrirtæki og stofnanir - viðskiptavinur hefur val um að greiða samkvæmt skilmálum fjölbýlis eða sérbýlis til samræmis við aðstæður hjá viðskiptavini.

e) Gjalddagi og eindagi áskriftargjalds vegna yfirstandandi mánaðar er að jafnaði fyrsti virki dagur þess mánaðar. Sé reikningur greiddur eftir gjalddaga greiðir viðskiptavinur dráttarvexti frá gjalddaga til greiðsludags skv. III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 auk innheimtukostnaðar skv. gildandi verðskrá Orkusölunnar hverju sinni.

f) Orkusölunni er heimilt að loka fyrir Hleðsluáskrift Orkusölunnar hafi skuld ekki verið greidd innan 30 daga frá gjalddaga og fjarlægja hleðslubúnað í eigu Orkusölunnar. Ef lokað er vegna vanskila ber Orkusalan enga ábyrgð á hugsanlegri röskun, óþægindum eða tjóni sem viðskiptavinur kann að verða fyrir vegna þessa. Orkusölunni er jafnframt heimilt að rukka viðskiptavin um breytingargjald vegna niðurtöku á hleðslubúnaði við þessar aðstæður, sbr. gildandi verðskrá Orkusölunnar hverju sinni.

g) Athugasemdir við reikninga skulu berast eins fljótt og auðið er og eigi síðar en á gjalddaga. Að öðrum kosti telst reikningurinn samþykktur.

4. Uppsögn

a) Báðir aðilar geta sagt upp Hleðsluáskrift Orkusölunnar.

b) Uppsögn á Hleðsluáskrift Orkusölunnar þarf að berast til Orkusölunnar og skal hún vera skrifleg, s.s. með tölvupósti á orkusalan@orkusalan.is. Uppsagnarfrestur er 30 dagar og hefst uppsagnarfrestur 1. dag næsta mánaðar frá skriflegri tilkynningu þar um. Orkusölunni er heimilt að segja upp áskrift með sömu forsendum.

c) Viðskiptavinur skal taka niður og skila Orkusölunni hleðslustöð og öðrum búnaði, eftir því sem við á, við lok uppsagnarfrests í sambærilegu ástandi og hún var afhent viðskiptavini. Verði viðskiptavinur ekki við því er Orkusölunni heimilt að láta taka hleðslustöð niður og rukka viðskiptavin um breytingargjald í samræmi við gildandi verðskrá Orkusölunnar hverju sinni. Lagnir að hleðslustöð eru ekki fjarlægðar enda eru þær á ábyrgð og í eigu viðskiptavinar. Viðskiptavinur getur gerst áskrifandi á nýjan leik þegar honum hentar.

d) Hætti viðskiptavinur við að taka Hleðsluáskrift Orkusölunnar í notkun eftir að uppsetningu á búnaði er lokið, fæst uppsetning ekki endurgreidd og Orkusalan áskilur sér rétt til að rukka breytingargjald skv. gildandi verðskrá Orkusölunnar hverju sinni fyrir niðurtöku búnaðarins.

e) Sé áskriftarsamningi komið á með fjarsölu eða utan fastrar starfsstöðvar Orkusölunnar, er viðskiptavini, í samræmi við lög um neytendasamninga nr. 16/2016, heimilt að falla frá samningi með tilkynningu þar um til Orkusölunnar innan 14 daga frá undirritun samnings á netfangið orkusalan@orkusalan.is. Um áhrif uppsagnar og kostnað vegna slíks fer eftir ákvæðum laga nr. 16/2016.

5. Önnur ákvæði

a) Komi upp ágreiningur út af skilmálum þessum skulu aðilar leitast við að leysa hann í sátt. Takist það ekki má bera málið undir Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa (www.kvth.is), Borgartúni 21 Reykjavík, eða reka mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

b) Ábendingum, fyrirspurnum og kvörtunum í tengslum við Hleðsluáskrift Orkusölunnar eða skilmála þessa eða skal beina til Orkusölunnar á netfangið orkusalan@orkusalan.is.

c) Að öðru leyti en kveðið er á um í skilmálum þessum gilda almennir viðskiptaskilmálar Orkusölunnar sem nálgast má á vefsíðu Orkusölunnar www.orkusalan.is.