Upprunaábyrgðir

Upprunaábyrgðir eru staðfesting á að ákveðið magn rafmagns hafi verið framleitt með 100 % endurnýjanlegum orkugjöfum. Hægt er að hugsa afurð endurnýjanlegra orkugjafa sem tvær aðskildar vörur. Annars vegar sú raforka sem framleidd er og hins vegar þær upprunaábyrgðir sem verða til við framleiðsluna.

Með kaupum á upprunaábyrgðum sem oft eru kallaðar græn skírteini fá raforkunotendur staðfestingu á því að rafmagnið sem þeir nota er framleitt með 100 % endurnýjanlegum orkugjöfum. Án upprunaábyrgðar telst rafmagnið vera úr sameiginlegum orkupotti Evrópu þar sem ólíkir orkugjafar eru notar til þess að framleiða rafmagn.

Raforka án upprunaábyrgða telst því ekki 100 % endurnýjanleg, þrátt fyrir að hún sé framleidd hér á landi með endurnýjanlegum orkugjöfum.

Staða Orkusölunnar

Öll raforkuframleiðsla Orkusölunnar kemur frá vatnsaflsvirkjunum sem telst til 100 % endurnýjanlegra orkugjafa og því verða til upprunaábyrgðir í samræmi við framleitt magn af raforku sem Orkusalan framleiðir.

Orkusalan selur ekki upprunaábyrgðir úr landi sem verða til við eigin framleiðslu heldur afskráir þær í þágu viðskiptavina sinna sem óska eftir því að kaupa upprunaábyrgðir með sinni raforkunotkun.

Orkusalan kaupir einnig rafmagn á heildsölumarkaði en á þeim markaði hafa nýlega orðið miklar breytingar varðandi afhendingu upprunaábyrgða.

Nýjustu breytingar

Breytingarnar tóku gildi 1. janúar 2023 en frá þeim degi ákvað Landsvirkjun, sem er okkar helsti heildsali að afhenda ekki upprunaábyrgðir til sinna smásala, heldur selja á sérstökum markaði.

Í kjölfar breytinganna þurfa viðskiptavinir Orkusölunnar að taka ákvörðun um hvort þeir vilji kaupa raforku með upprunaábyrgðum. Við hvetjum viðskiptavini okkar um að taka meðvitaða ákvörðun og kynna sér vel þau tækifæri sem eru í boði.

Spurt & Svarað um upprunaábyrgðir