Pálmi Sigurðsson, stöðvarstjóri Lagarfossvirkjunar og verkefnastjóri virkjana á Austurlandi

Pálmi hefur starfað hjá Orkusölunni síðan árið 2008 og hefur því starfað hjá fyrirtækinu í 15 ár. Þar áður starfaði hann hjá RARIK í sama starfi og þekkir því virkjanir Orkusölunnar betur en flestir. Pálmi er búsettur fyrir austan þar sem er alltaf gott veður, en hvernig er dæmigerður vinnudagur hjá Pálma?

Ég vakna fresh fress, fæ mér einn rjúkandi. Svo er farið inn á stjórntölvur allra virkjana sem við erum að stýra: Lagarfoss, Grímsár, Smyrlu og Rjúkanda. Fylgst með rekstri og gripið inn eftir atvikum, stýrt til að hámarka framleiðslu auðlinda Orkusölunnar og svo er færð inn keyrsluspá,“ segir Pálmi

Pálmi talar einnig um reglulega morgunfundi með starfsmönnum virkjana þar sem skipt er í lið eftir atvikum og hist í þeirri virkjun þar sem verkefnin eru aðkallandi.

Verkefnin eru fjölmörg í viðhaldi og umbótum flaggskipa Orkusölunnar, sem gefur að skilja því hver virkjun er einstök og samanstendur af mörgum kerfum,“ segir Pálmi.

Hvað gerir Orkusöluna að góðum vinnustað?

Það sem gerir Orkusöluna helst að góðum og skemmtilegum vinnustað er gríðarlegur fjölbreytileiki verkefna: einn daginn ertu að tengja stýrivél og finna út úr bilun í gangráði eða skipta um ásþétti og legur í mótor. Hinn daginn ertu kannski að opna miðlunarlón eða mæla rennsli í á sem er hugsanlegur virkjanakostur, og allt þar á milli. Þetta eru oft krefjandi verkefni en fjölbreytt og skemmtileg. Þess vegna er Orkusalan góður vinnustaður auk þess að vera með stuttar og skilvirkar boðleiðir,“ segir Pálmi

Hvað er stuð fyrir þér?

„Stuð er vina- eða fjölskylduhittingur hverskyns með góðri tónlist og jafnvel smá dreitill meððí“, segir Pálmi sem heldur ekki aðeins uppi stuðinu í virkjunum heldur líka á öllu Austurlandi!