Erling Ormar Vignisson, sviðsstjóri stafrænna lausna

Erling hóf störf hjá Orkusölunni árið 2019 eftir að hafa búið í Svíþjóð í sjö ár. Fyrstu verkefni Erlings hjá Orkusölunni snéru að innleiðingu nýs reikningagerðarkerfis og þróun nýs þjónustuvefs ásamt því að koma á ferlum í tengslum við innheimtuferli ógreiddra krafna. Í beinu framhaldi bættust við mál tengd PowerBI-skýrslum og birtingu gagna ásamt innleiðingu CRM-kerfis sem síðan hefur orðið ómissandi þáttur í starfseminni.

Mörg verkefni Erlings eru einnig unnin í góðu samstarfi við aðrar deildir: „Verkefni tengd vefmálum, sjálfsafgreiðslu viðskiptavina og þjónustuferlum eru unnin í góðu samstarfi við markaðssvið; samþætting kerfa, sjálfvirknivæðing og rekstur reikningagerðarkerfis eru verkefni unnin í samvinnu við fjármálasvið. Auk þess kem ég að samningagerð við þjónustuaðila og tek þátt í málum tengdum breytingum á regluverki á raforkumarkaði, umsögnum og vinnu við breytingar á viðskiptaskilmálum í takt við breytingar og aukið þjónustuframboð Orkusölunnar.“

Síðast en ekki síst hefur hleðslustöðvaverkefnið Heimastuð verið fyrirferðarmikið í þróun síðustu misseri og má því segja að Erling hafi mörg járn í eldinum.

Hvað gerir Orkusöluna að góðum vinnustað?

Orkusalan er ekki stórt fyrirtæki í starfsmönnum talið, en sinnir meira en 30 þúsund viðskiptavinum með nauðsynjavöruna rafmagn. Mér finnst stærðin spennandi þáttur, en sú staðreynd að boðleiðir eru stuttar og ákvarðanataka getur verið hröð: tvíeggja sverð sem er öflugt vopn en þarf að nota með gát,“ segir Erling.

Bókfærðar eignir í eigu Orkusölunnar eru vissulega mikils virði, en fólkið sem vinnur hjá Orkusölunni er ekki síður mikils virði. Við hjálpumst að, erum gagnrýnin á eigin störf og meðvituð um hvað og hvernig gera megi betur. Oft er kapp við tímann og mörg járn í eldinum sem fylgja örum vexti Orkusölunnar, sem er spennandi að vinna með fólki sem leggur sig fram við að skila góðu verki,“ segir Erling

Hvað er stuð fyrir þér?

„Stuð er orkan sem við sækjum hvert frá öðru, andrúmsloftið á vinnustaðnum og krafturinn sem liggur að baki vörumerki Orkusölunnar,“ segir Erling sem leggur mikið upp úr því að hafa gaman í vinnunni og er þekktur fyrir að taka vel í allt stuð.