Stuð í 50 ár – Fjölmenni í afmæli Lagarfossvirkjunar

Um 250 manns komu saman við Lagarfossvirkjun í gær til að fagna 50 ára afmæli virkjunarinnar, sem haldið var í tengslum við Ormsteiti, bæjarhátíð Egilsstaða. Veðrið lék við gesti eftir miklar rigningar dagana á undan og skapaði hátíðlega stemningu á þessum merku tímamótum.

Gestir ánægðir

Á staðnum var mikið stuð, pylsur og kökur runnu ljúflega niður og hoppukastalar glöddu yngstu kynslóðina. Fjölmargir mættu, bæði heimamenn á öllum aldri og gestir af svæðinu, og ekki síst fyrrverandi starfsmenn og verkamenn sem komu að byggingu virkjunarinnar á sínum tíma. Gestum gafst jafnframt kostur á að skoða virkjunina og fræðast um starfsemina. Viðburðurinn þótti afar vel heppnaður og ríkti mikil ánægja meðal viðstaddra.

Úr dísil í hreint stuð

Lagarfossvirkjun markaði tímamót í orkusögu Austurlands þegar hún hóf rekstur árið 1975. Með tilkomu hennar var hægt að hætta notkun dísilrafstöðva sem voru bæði dýrar og mengandi. Íbúar og atvinnulíf fengu í fyrsta sinn örugga og hagkvæma orku úr fallvötnum Lagarfljóts, breyting sem hefur síðan eflt byggðina og styrkt orkuöryggi svæðisins.