Orkusalan fékk Jafnvægisvog FKA

Orkusalan fékk afhenda í dag viðurkenningu Jafnvægisvogar FKA við hátíðlega athöfn. Halla Marinósdóttir tók við viðurkenningunni fyrir hönd Orkusölunnar en hún er stjórnandi á sviði árangurs og umbóta.

Alls voru 56 fyrirtæki, 11 sveitarfélög og 22 opinberir aðilar sem hlutu viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar, hreyfiaflsverkefnis FKA.

Afhending Jafnvægisvogarinnar er liður í því að vekja fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög til umhugsunar um virði fjölbreytileika og jafnvægis með auknum jöfnuði kynja í stjórnunarstöðum. Viðurkenningarathöfnin fór fram í höfuðstöðvum RÚV í Efstaleiti og var sýnt frá henni í beinni útsendingu á RÚV.

Tilgangur Jafnvægisvogarinnar er að auka á jafnvægi kynja í efsta lagi stjórnunar fyrirtækja í íslensku viðskiptalífi með það að markmiði að árið 2027 verði 40/60 kynjahlutfall í framkvæmdastjórnum fyrirtækja á Íslandi. Auk þess að virkja íslenskt viðskiptalíf til að verða að fyrirmynd jafnréttis fyrir aðrar þjóðir, að veita viðurkenningar og draga fram í sviðljósið fyrirtæki sem hafa náð markmiðum Jafnvægisvogarinnar og standa fyrir viðburðum og fræðslu og vekja samfélagið til hugsunar um virði fjölbreytileika og jafnvægis.

Á ráðstefnunni var boðið uppá fræðandi erindi auk þess sem veittar voru viðurkenningar til þeirra fyrirtækja sem hafa náð að jafna hlutfall kynja í efsta lagi í a.m.k. 40/60.