Orkusalan er fyrsta íslenska orkufyrirtækið sem kolefnisjafnar eigin raforkuvinnslu

„Við höfum í samstarfi við Eflu verkfræðistofu haldið utan um alla losun sem viðkemur starfsemi fyrirtækisins og höfum frá upphafi kolefnisjafnað allan rekstur með eigin skógrækt. Við vildum taka skrefið enn lengra og ákváðum að jafna einnig alla losun sem hlýst af vinnslu raforkunnar. Vinnsla á rafmagni veldur mismikilli losun en öll okkar raforka kemur frá vatnsaflsvirkjunum sem eru með losun í lágmarki miðað við aðrar vinnsluaðferðir“ segir Magnús Kristjánsson, framkvæmdastjóri Orkusölunnar.

Skógur Orkusölunnar við Skeiðsfossvirkjun bindur 122 tonn CO2 á ári en hann þekur 19 hektara á skógræktarsvæðinu sem telur 65 hektara í heild. Skógurinn bindur um þrefalt magn þeirrar losunar gróðurhúsalofttegunda sem fylgir rekstri fyrirtækisins.

Skógurinn við Skeiðsfossvirkjun

„Við ætlum okkur að halda áfram að rækta skóginn á næstu árum og auka nýtingu skógræktarsvæðisins. Svæðið er einnig nýtt til útivistar allan ársins hring með þeirri fjölbreytni og skjóli sem skógurinn gefur. Eins munum við halda áfram að kolefnisjafna alla losun gróðurhúsalofttegunda sem verður vegna reksturs fyrirtækisins og vinnslu raforkunnar árlega“

segir Magnús Kristjánsson, framkvæmdastjóri Orkusölunnar.

Skógur Orkusölunnar bindur alla losun sem hlýst af rekstri fyrirtækisins og vel rúmlega það og er umframbindingin nýtt til að jafna hluta af eigin raforkuvinnslu og hefur sú losun sem eftir stendur verið jöfnuð í samstarfi við Kolvið.