Mikil starfsánægja mælist hjá Orkusölunni
Mikil starfsánægja mælist hjá Orkusölunni en fyrirtækið hefur síðustu tvö ár verið með mannauðsmælingar innanhúss. Stöðugar mælingar, eftirfylgni og virk hlustun er lykillinn að þessari starfsánægju.
Orkusalan hefur undanfarin ár styrkt könnun félagsins Konur í orkumálum - KÍO þar sem líðan kvenna í orkugeiranum hefur verið könnuð. Heiða Halldórsdóttir, markaðsstjóri Orkusölunnar, fer yfir þær breytingar sem voru á könnuninni í ár, samanburð milli ára og niðurstöður sem voru heilt yfir ánægjulegar.
„Við hjá Orkusölunni höfum síðustu tvö ár verið með mannauðsmælingar innanhúss til að fá enn skýrari mynd af eigin starfsemi. Sú könnun kemur mjög vel út og er í góðu samræmi við könnun KÍÓ. Við sjáum í okkar könnunum að það sem skiptir starfsfólk miklu máli er sveigjanlegur vinnutími og möguleiki á fjarvinnu. Það skiptir einnig miklu máli að það ríki góð liðsheild innan fyrirtækisins og hvatning frá stjórnendum ýtir undir starfsánægju,“ segir Heiða.