Heiða Halldórsdóttir er nýr framkvæmdastjóri hjá Orkusölunni
Heiða Halldórsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri sölu- og þjónustu hjá Orkusölunni. Hún hefur gegnt stöðu markaðsstjóra fyrirtækisins síðaðstliðin fimm ár en einnig hefur hún gegnt stöðu sviðsstjóra einstaklingssviðs og hefur setið í framkvæmdastjórn fyrirtækisins síðustu tvö ár.
Heiða mun leiða vinnu Orkusölunnar við sölu og þjónustu til núverandi og nýrra viðskiptavina ásamt því að leiða markaðsmál fyrirtækisins. Auk þess mun Heiða stýra verkefnum á sviði orkuskipta. Heiða situr áfram í framkvæmdastjórn fyrirtækisins.
Um er að ræða nýja stöðu innan Orkusölunnar en fyrirtækið hefur ráðist í skipulagsbreytingar í kjölfar stefnumótunarvinnu
,,Orkusalan er öflugt félag sem hefur stækkað hratt á síðustu árum. Ég er virkilega þakklát fyrir það traust sem mér er sýnt og hlakka til að halda áfram að byggja upp sterkt félag með frábæru starfsfólki Orkusölunnar“, segir Heiða
Orkusalan rekur sex vatnsaflsvirkjanir á Íslandi, þar á meðal Lagarfossvirkjun, Skeiðsfossvirkjun og Rjúkandavirkjun. Félagið selur raforku til heimila, fyrirtækja og stofnana um allt land á samkeppnismarkaði. Orkusalan er dótturfélag Rarik, sem er í eigu Íslenska ríkisins.
Í framkvæmdastjórn Orkusölunnar eru nú þau Andri Teitsson, Halla Marinósdóttir, Heiða Halldórsdóttir og Þengill Ásgrímsson. Magnús Kristjánsson er forstjóri Orkusölunnar.