
Aukin þyngd í orkuskiptunum
Það voru sannkallaðir stuðdagar í Vík í Mýrdal sl. þriðjudag og miðvikudag, 2. og 3. september, þegar feðgarnir Auðbert Vigfússon og Vigfús Páll tóku á móti sínum fyrsta rafmagnsvörubíl. Feðgarnir fögnuðu sameiginlegu afmæli sínu 2. september með stæl – með tveimur nýjum trukkum í einu, rafmagnsbíl og átta hjóla dísilbíl.
En rafmagnstrukkurinn er ekki bara gleðigjafi feðganna heldur líka tákn um nýja tíma í flutningum. Til að halda honum gangandi með stanslausu stuði var á miðvikudaginn opnað fyrir glæsilega 200 kW hraðhleðslustöð á lóð flutningafyrirtækis feðgana í samstarfi við Orkusöluna.
„Við erum ótrúlega ánægðir með þetta samstarf við Orkusöluna,“ segir Vigfús Páll. „Stöðin tryggir að við getum notað rafmagnsvörubílinn af fullum krafti daglega, og svo geta ferðamenn líka stoppað í Vík, stungið í samband og haldið áfram ferðinni. Þetta er risaskref fyrir okkur og samfélagið hér.“
„Stöðin tryggir að við getum notað rafmagnsvörubílinn af fullum krafti daglega"

Langdrægari þungaflutningar en áður hefur sést
Rafmagnsbíllinn er af gerðinni Mercedes-Benz, með 600 kílóvattstunda rafhlöðum sem duga honum allt að 500 kílómetra í fullum þunga. Það þýðir að feðgarnir geta keyrt með 40 tonn á rafmagni – án tilheyrandi mengunar eða hávaða.
„Það er algjör lúxus að keyra bíl sem hvorki lætur í sér heyra né krefst gírskiptinga,“ segir Vigfús og brosir. „Ótrúlega þýður og þægilegur, og það með 40 tonn í eftirdragi!“

Þú hleður bílinn - og þig sjálfa/n
Hleðslustöðin stendur við hliðina á Smiðjunni – veitingastað og brugghúsi sem allir sem stoppa í Vík ættu að prófa. Þar geta ferðalangar fengið sér afbragðs borgara og svalandi drykk á meðan bíllinn fær sitt rafmagnsstuð.
Steinþór Freyr Steinþórsson sérfræðingur í hleðslulausnum hjá Orkusölunni segir að verkefnið í Vík sé frábær áfangi í orkuskiptunum: „Það er heiður að vera hluti af þessum fyrstu skrefum í orkuskiptum fyrir þungaflutninga og Orkusalan er stolt af þátttöku sinni í því. Það er líka ótrúlega gefandi að fá tækifæri á að vinna með svona framsæknu fólki eins og þeir feðgar eru.“
Eins og á öllum okkar hleðslustaðsetningum geta viðskiptavinir Orkusölunnar fundið stöðina í E1 appinu. Ef þú ert síðan mikið á ferðinni og vilt hagstæðari kjör á rafmagni geturðu skoðað HleðsluOrku pakkann okkar.
- Sækja E1 appið: App store Play store
- Skoða HleðsluOrku
- Skoða Smiðjuna brugghús