Lagarfossvirkjun

Uppsett afl
27,2 MW
Meðalrennsli á sek.
115 M3
Virkjunin opnaði
1974
Staðsetning
Fljótsdalshérað

Lagarfossvirkjun

Lagar­foss­virkj­unin er í Lagar­fljóti á Fljóts­dals­héraði og dregur nafn af samnefndum fossi sem áður rann þarna.

Lagar­fljótið

Lagar­fljót á upptök í Vatna­jökli, Eyja­bakka­jökli, og nefnist þar Jökulsá í Fljótsdal. Eftir að hún fellur í Löginn, sem er 52 km2 stöðu­vatn, nefnist vatns­fallið Lagar­fljót. Margar dragár falla í fljótið og eru helstar Kelduá, Grímsá og Eyvindará sem renna í það að aust­an­verðu en að norð­an­verðu Bessa­staðaá og Rangá.

Rennsli fljótsins jafnast mjög við að fara gegnum Löginn. Fljótið ber dragárein­kenni niður við Lagar­foss en Jökulsá og Lögurinn draga nokkuð úr þeim. Vatna­svið fljótsins fyrir ofan Lagar­foss er 2.800 km2 og meðal­rennslið að jafnaði um 115 m3/sek.

Upphaf virkj­un­innar

Undir lok sjöunda áratug­arins var ástand á Aust­fjörðum þannig að mest­allt rafmagn var fram­leitt með dísil­vélum. Á þeim árum var olíu­verð hátt og því dýrt að fram­leiða rafmagn með olíu. Þess var vænst að með virkjun Lagar­fljóts lyki þessum halla­rekstri. Var því mikið hags­munamál að ráðist yrði í Lagar­foss­virkjun, ekki aðeins fyrir Aust­firð­inga, heldur einnig fyrir raforku­not­endur í landinu öllu.

Vorið 1971 var ákveðið að hefja vinnu við virkjun Lagar­foss. Þegar um haustið hóf Norð­ur­verk hf. bygg­ing­ar­hluta verksins.

Á árinu 1972 var grafinn 480 m aðrennsl­is­skurður fyrir þrýsti­stokk og stöðv­arhús. Auk þess var laxa­stigi steyptur. Jarð­vegs­stíflu var komið fyrir ofan við Lagar­foss þar sem fljótið fellur úr Steins­vaðs­flóa. Stífla þessi er 100 m löng og mesta hæð hennar er um 10 m.

Bygg­inga­vinnu lauk sumarið 1974 og niður­setn­ingu á vélbúnaði var nær lokið í árslok. Hverfill var gang­settur 15. febrúar 1975 og 4. mars sama ár hófst orku­fram­leiðsla. Formleg afhending fór fram 25. sept­ember 1975.

Í febrúar árið 2005 fékkst form­legt virkj­un­ar­leyfi fyrir stækkun Lagar­foss­virkj­unar. Rarik hafði þá óskað eftir að stækka Lagar­foss­virkjun á Fljóts­dals­héraði um allt að 20 MW. Þegar virkj­unin var tekin í notkun árið 1975 hafði verið gert ráð fyrir að hægt væri að stækka hana. Með tilkomu Kára­hnjúka­virkj­unar eykst rennsli um Lagar­fljót sem gerði þessa stækkun fýsi­lega. Stækkuð virkjun var tekin í notkun í október 2007 og þá jókst orku­vinnsla um 130 GWst á ári sem var tvöföldun á rafmagns­fram­leiðslu fyrir­tæk­isins á þeim tíma.

Uppsett afl beggja virkjana í dag er 27,2 MW.