Hólmsárvirkjun
Hólmsárvirkjun
Hólmsá
Hólmsárvirkjun er samstarfsverkefni Landsvirkjunar og Orkusölunnar. Hún er staðsett í Skaftártungu í Skaftárhreppi, skammt neðan hálendisbrúnarinnar og því utan þess svæðis sem skipulag miðhálendisins nær til. Virkjunin nýtir fall Hólmsár frá Hólmsárfossi og niður á Flöguvelli við Flögulón.
Afl Hólmsárvirkjunar er 65 megavött sem nýtist til að mæta vaxandi raforkuþörf í landinu jafnt til almennra nota og til iðnaðar. Virkjunin er aðeins 11 km ofan Hringvegar um Mýrdalssand og því fylgir framkvæmdinni ekki umfangsmikil vegagerð. Gert er ráð fyrir að virkjunin verði tengd flutningskerfi Landsnets með loftlínu.
Miðlunarlón virkjunarinnar, Atleyjarlón, er 9,3 ferkílómetrar að flatarmáli. Atleyjarlón myndast með stíflu yfir farveg Hólmsár, norðan við Atley. Frá stíflu norðan við Atley er vatni veitt að inntaki og fallgöngum að stöðvarhúsi neðanjarðar í Atley. Þaðan fer vatnið um frárennslisgöng og frárennslisskurð út í Flögulón.
Undirbúningur
Mikilvægur hluti undirbúningsvinnu Hólmsárvirkjunar snýr að mótvægisaðgerðum til að lágmarka neikvæð áhrif á umhverfið. Með tilkomu Atleyjarlóns tapast um 44 ha af birkiskógi sem þekur tæplega 5% lónstæðisins. Samtals eru í Skaftártungu 1820 ha af birkiskógi. Stefnt er að því að birkiskógur og önnur gróðurlendi verði endurheimt til að bæta fyrir vistkerfi sem glatast.
Hólmsárvirkjun hefur verið í undirbúningi í fjölda ára og svæðið mikið rannsakað. Núverandi útfærsla virkjunarinnar var þróuð í samvinnu við heimamenn og er með umtalsvert minni og afmarkaðri umhverfisáhrif en fyrri hugmyndir sem fallið hefur verið frá:
Kostir núverandi útfærslu Hólmsárvirkjunar
- Vatni ekki veitt yfir í Tungufljót þannig að áhrifin á vinsæl veiðisvæði í Tungufljóti verða engin.
- Ekki snert við Hólmsá fyrr en neðan við Hólmsárfoss. Áhrifin verða því engin á Hólmsárfoss.
- Mun minni áhrif á þann hluta Hólmsár sem helsinginn nýtir undir varpstöðvar.
- Takmörkuð áhrif á þau svæði sem í dag eru mest nýtt af ferðamönnum og af ferðaþjónustunni.
Landspjöll af völdum Skaftárhlaupa eru mikil í Skaftárhreppi og bændur við Flögulón hafa orðið fyrir miklum búsifjum af þeirra völdum. Landbrotið á árabilinu 1946 til 2002 var um 200 m á um 2 km kafla eða 40 ha og fyrirséð er að þetta landbrot heldur áfram ef ekkert er að gert. Verði af Hólmsárvirkjun er hægt að nota efni úr frárennslisgöngunum til að gera varnargarða á vesturbakka Flögulóns til að stöðva landbrotið og miðast áætlanir við að það verði gert.
Heppileg stærð
Með byggingu Hólmsárvirkjunar hyggst Orkusalan mæta vaxandi orkuþörf í landinu til almennra nota. Til að mæta aukinni raforkuþörf í smásölu þarf afl kerfisins að aukast um 10-15 MW á ári og orkugetan um 60–90 GWh á ári. Hólmsárvirkjun er áætluð 65 MW að stærð og verður með um 480 GWh orkuframleiðslu á ári. Það er því ljóst að ef virkja á fyrir almennan markað þá er Hólmsárvirkjun af mjög heppilegri stærð. Þess vegna hefur Orkusalan lagt áherslu á hana í áætlunum sínum.