Hólmsárvirkjun

Uppsett afl
65 MW
Meðalrennsli á sek.
70 M3
Virkjunin opnaði
Í vinnslu
Staðsetning
Skaft­ár­tunga

Hólmsárvirkjun

Hólmsá

Hólmsár­virkjun er samstarfs­verk­efni Lands­virkj­unar og Orku­söl­unnar. Hún er stað­sett í Skaft­ár­tungu í Skaft­ár­hreppi, skammt neðan hálend­is­brún­ar­innar og því utan þess svæðis sem skipulag miðhá­lend­isins nær til. Virkj­unin nýtir fall Hólmsár frá Hólmsár­fossi og niður á Flögu­velli við Flögulón.

Afl Hólmsár­virkj­unar er 65 mega­vött sem nýtist til að mæta vaxandi raforku­þörf í landinu jafnt til almennra nota og til iðnaðar. Virkj­unin er aðeins 11 km ofan Hring­vegar um Mýrdals­sand og því fylgir fram­kvæmd­inni ekki umfangs­mikil vega­gerð. Gert er ráð fyrir að virkj­unin verði tengd flutn­ings­kerfi Lands­nets með loft­línu.

Miðl­un­arlón virkj­un­ar­innar, Atleyj­arlón, er 9,3 ferkíló­metrar að flat­ar­máli. Atleyj­arlón myndast með stíflu yfir farveg Hólmsár, norðan við Atley. Frá stíflu norðan við Atley er vatni veitt að inntaki og fall­göngum að stöðv­ar­húsi neðan­jarðar í Atley. Þaðan fer vatnið um frárennsl­is­göng og frárennsl­is­skurð út í Flögulón.

Undir­bún­ingur

Mikil­vægur hluti undir­bún­ings­vinnu Hólmsár­virkj­unar snýr að mótvæg­is­að­gerðum til að lágmarka neikvæð áhrif á umhverfið. Með tilkomu Atleyj­ar­lóns tapast um 44 ha af birki­skógi sem þekur tæplega 5% lónstæð­isins. Samtals eru í Skaft­ár­tungu 1820 ha af birki­skógi. Stefnt er að því að birki­skógur og önnur gróð­ur­lendi verði endur­heimt til að bæta fyrir vist­kerfi sem glatast.

Hólmsár­virkjun hefur verið í undir­bún­ingi í fjölda ára og svæðið mikið rann­sakað. Núver­andi útfærsla virkj­un­ar­innar var þróuð í samvinnu við heima­menn og er með umtals­vert minni og afmark­aðri umhverf­is­á­hrif en fyrri hugmyndir sem fallið hefur verið frá:

Kostir núver­andi útfærslu Hólmsár­virkj­unar

  • Vatni ekki veitt yfir í Tungufljót þannig að áhrifin á vinsæl veiði­svæði í Tungufljóti verða engin.
  • Ekki snert við Hólmsá fyrr en neðan við Hólmsár­foss. Áhrifin verða því engin á Hólmsár­foss.
  • Mun minni áhrif á þann hluta Hólmsár sem hels­inginn nýtir undir varp­stöðvar.
  • Takmörkuð áhrif á þau svæði sem í dag eru mest nýtt af ferða­mönnum og af ferða­þjón­ust­unni.

Land­spjöll af völdum Skaft­ár­hlaupa eru mikil í Skaft­ár­hreppi og bændur við Flögulón hafa orðið fyrir miklum búsifjum af þeirra völdum. Land­brotið á árabilinu 1946 til 2002 var um 200 m á um 2 km kafla eða 40 ha og fyrirséð er að þetta land­brot heldur áfram ef ekkert er að gert. Verði af Hólmsár­virkjun er hægt að nota efni úr frárennsl­is­göng­unum til að gera varn­ar­garða á vest­ur­bakka Flögu­lóns til að stöðva land­brotið og miðast áætl­anir við að það verði gert.

Heppileg stærð

Með bygg­ingu Hólmsár­virkj­unar hyggst Orku­salan mæta vaxandi orku­þörf í landinu til almennra nota. Til að mæta aukinni raforku­þörf í smásölu þarf afl kerf­isins að aukast um 10-15 MW á ári og orku­getan um 60–90 GWh á ári. Hólmsár­virkjun er áætluð 65 MW að stærð og verður með um 480 GWh orku­fram­leiðslu á ári. Það er því ljóst að ef virkja á fyrir almennan markað þá er Hólmsár­virkjun af mjög heppi­legri stærð. Þess vegna hefur Orku­salan lagt áherslu á hana í áætl­unum sínum.