Viðskiptaskilmálar

Viðskiptaskilmálar Orkusölunnar ehf.

1. Gildissvið

Hér á eftir fara almennir viðskiptaskilmálar Orkusölunnar ehf. („Orkusalan“), kt. 560306-1130, Urðarhvarf 8, 203 Kópavogur, sem gilda skulu um öll viðskipta- og samningssambönd Orkusölunnar og viðskiptavina hennar, óháð staðsetningu viðskiptavinar, þ.á m. raforkusölusamninga, nema um annað sé sérstaklega samið. Þegar viðskiptavinur gerir raforkusölusamning við Orkusöluna um kaup á raforku, hvort sem slíkur samningur er gerður skriflega, munnlega eða með rafrænum hætti, þá samþykkir viðskiptavinur jafnframt að hafa kynnt sér og samþykkt viðskiptaskilmála þessa og að viðskiptaskilmálar Orkusölunnar á hverjum tíma teljist hluti af raforkusölusamningum viðskiptavinar við Orkusöluna samkvæmt reglugerð nr. 1150/2019.

Orkusalan selur raforku til viðskiptavina í samræmi við gildandi raforkulög nr. 65/2003, með síðari breytingum, reglugerð nr. 1040/2005 um framkvæmd raforkulaga og reglugerð um raforkuviðskipti og mælingar nr. 1150/2019.

Raforkusala er undanþegin ákvæðum laga um neytendakaup nr. 48/2003 og laga um lausafjárkaup nr. 50/2000. Það athugast að viðskiptaskilmálar þessir taka eingöngu til sölu á raforku, en ekki flutnings og dreifingar hennar, enda aðrir aðilar en Orkusalan sem sjá um og bera ábyrgð á flutningi og dreifingu raforku.

Að því marki sem viðskiptavinir Orkusölunnar eru neytendur mun Orkusalan gæta að því að upplýsingaskylda sé ávallt í samræmi við lög og reglur þar að lútandi.

2. Notkun, verð og greiðsluskilmálar

Með gerð raforkusölusamnings við Orkusöluna veitir viðskiptavinur Orkusölunni umboð til að afla upplýsinga um raforkunotkun viðskiptavinar. Umboðið nær meðal annars til upplýsinga um númer veitu og mælis, dreifisvæði, heimilisfang, dreifiveitutaxta, áætlaðri ársnotkun, meðalnotkun, síðasta álestri, mæliaðferð, stöðu mælis, margföldunarstuðli og stafafjölda. Með undirritun raforkusölusamnings veitir viðskiptavinur Orkusölunni jafnframt heimild til þess að tilkynna Netorku um upphaf viðskipta eða söluaðilaskipti, hafi viðkomandi viðskiptavinur verið í viðskiptum við annan söluaðila.

Ef um tímamældar veitur er að ræða þá eru tímagildin afhent allt að 24 mánuði aftur í tímann. Raforkunotkun viðskiptavinar, við gerð raforkusölusamnings, er notuð til að ákvarða áætlun um orkunotkun. Sé um að ræða nýjan viðskiptavin sem ekki hefur áður keypt raforku er Orkusölunni heimilt að áætla notkun hans með hliðsjón af sambærilegri notkun. Ef ekki er um annað samið þá fer verð Orkusölunnar fyrir sölu á raforku til heimila og fyrirtækja eftir gildandi verðskrá Orkusölunnar hverju sinni (kr./kWst.). Verðskrána er að finna á vefsíðu Orkusölunnar en auk þessa birtist verðið á reikningum frá Orkusölunni. Breytingar á verðskrá eru auglýstar á vefsíðu Orkusölunnar og taka gildi við birtingu nema annað sé tekið fram. Jafnframt geta viðskiptavinir óskað eftir upplýsingum um gildandi verð hverju sinni frá Orkusölunni. Raforkuverðið innfelur eingöngu verð á söluhluta raforku. Orkusalan innheimtir einnig skatta og gjöld vegna raforkunotkunar samkvæmt gildandi löggjöf hverju sinni. Orkusalan gefur mánaðarlega út greiðslukröfur í banka vegna raforkunotkunar fyrir síðastliðinn mánuð. Gjalddagi kröfu skal vera 2. dag hvers mánaðar eða fyrsta virka dag þar á eftir. Orkusalan áskilur sér rétt til þess að innheimta seðilgjald vegna reikninga sem sendir eru viðskiptavinum á pappírsformi. Seðilgjaldið skal koma fram á reikningum og birtast í verðskrá.

3. Upphaf samnings

Ef viðskiptavinur er ekki þegar í viðskiptum við annan söluaðila, tekur samningur við Orkusöluna gildi við undirritun. Ef viðskiptavinur er þegar í viðskiptum við annan söluaðila og skiptir, með gerð raforkusölusamnings við Orkusöluna, um söluaðila raforku þá tekur samningurinn gildi í samræmi við 10. gr. reglugerðar 1150/2019 um raforkuviðskipti og mælingar, auk ákvæða 9. kafla Netmála B6 („Samskipti milli aðila á raforkumarkaði með grunn-, mæli-, og uppgjörsgögn“) sem sett eru af Landsneti hf. Nánar tiltekið getur upphafstími þjónustu Orkusölunnar við viðskiptavin verið breytilegur eftir því hvenær söluaðila berst uppsögn fyrri samnings:

  • ef uppsögn fyrri samnings berst söluaðila meira en 3 vikum fyrir lok líðandi mánaðar, getur þjónusta Orkusölunnar hafist 1. dag næsta mánaðar.
  • ef uppsögn fyrri samnings berst söluaðila á síðustu 3 vikum líðandi mánaðar, getur þjónusta Orkusölunnar hafist 1. dag þarnæsta mánaðar.

Í samræmi við lög um neytendasamninga nr. 16/2016, er neytendum í skilningi laganna, heimilt að falla frá samningi með tilkynningu til seljanda innan 14 daga frá undirritun samnings. Um kostnað vegna slíks fer eftir ákvæðum laganna.

4. Uppsögn samnings

Raforkusölusamningar Orkusölunnar og viðskiptavina eru ótímabundnir nema um annað sé samið. Báðum aðilum samningsins er heimilt að segja upp raforkusölusamningnum með 3ja vikna fyrirvara, nema um annað sé sérstaklega samið, og tekur uppsögnin gildi 1. næsta mánaðar frá tilkynningu þar um.

5. Innheimta, dráttarvextir og stöðvun orkuafhendingar

Sé greiðslukrafa frá Orkusölunni ekki greidd á gjalddaga reiknast af kröfunni dráttarvextir samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá gjalddaga og til greiðsludags. Orkusalan innheimtir allar fjárkröfur sem falla í gjalddaga eftir þeim reglum sem gilda um innheimtu þeirra hverju sinni. Auk dráttarvaxta innheimtir Orkusalan allan innheimtukostnað samkvæmt gildandi reglum. Orkusalan sendir, eftir gjalddaga, skriflega áskorun til viðskiptavinar um að greiða raforkuskuld ásamt viðvörun um það að við greiðslufall sé heimilt að stöðva orkuafhendingu í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 1150/2019, sbr. einkum 11. gr. Reynist innheimta kröfunnar þrátt fyrir þetta árangurslaus, þá hefur Orkusalan heimild til þess, með fulltingi dreifiveitu, að stöðva orkuafhendingu til viðskiptavinar, þar til ógreiddar kröfur Orkusölunnar eru að fullu greiddar ásamt kostnaði. Heimild er í 43. gr. raforkulaga nr. 65/2003, sbr. 10. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga um aðför nr. 90/1989, til aðfarar fyrir kröfunni án undangengis dóms eða sáttar.

6. Riftun

Orkusölunni er heimilt að rifta raforkusölusamningi við viðskiptavin ef vanskil eiga sér stað vegna raforkukaupa, svo fremi sem viðskiptavini hafi áður verið gefið skrifleg viðvörun, sbr. 12. gr. reglugerðar nr. 1150/2019. Þá er Orkusölunni heimilt að rifta samningi við viðskiptavin án fyrirvara ef bú hans er tekið til gjaldþrotaskipta. Viðskiptavinur getur rift samningi sínum við Orkusöluna ef Orkusalan vanefnir skyldur sínar verulega.

7. Ábyrgðarreglur

Skaðabótaréttur viðskiptavinar og Orkusölunnar skal ætíð takmarkast við beint tjón. Óbeint tjón, þ.á m. samningshagsmunatjón, fæst því ekki bætt. Orkusalan ber ekki ábyrgð á tjóni sem rekja má til óviðráðanlegra atvika (Force Majeure), svo sem vegna orkuskorts, styrjalda og náttúruhamfara, þ.á m. óveðurstjóns. Orkusalan ber ekki ábyrgð á þeim skyldum sem hvíla á flutningsfyrirtæki orku og dreifiveitu, samkvæmt raforkulögum nr. 65/2003, svo sem ef grípa þarf til skömmtunar á raforku til notenda ef framboð er ekki fullnægjandi. Tengisamningur við dreifiveitu er ekki hluti samnings viðskiptavinar og Orkusölunnar. Dreifiveita ber m.a. ábyrgð á uppsetningu, rekstri og viðhaldi mælibúnaðar sem og söfnun, leiðréttingu, staðfestingu og dreifingu mæligagna. Viðskiptavini ber að virða skilmála dreifiveitna og Landsnets hf., sbr. gildandi Netmála Landsnets hf. Ef erfiðleikar eru við orkuöflun er Orkusölunni heimilt, án þess að til bótaskyldu stofnist, að skerða afhendingu raforku. Orkusalan lætur vita af slíkri skerðingu fyrirfram eftir því sem unnt er.

8. Nýr notandi

Orkusalan áskilur sér rétt til þess að synja nýjum aðila, sem ekki hefur gert sérstakan samning við Orkusöluna, sem og nýjum notkunarstað núverandi viðskiptavinar, um afhendingu á raforku, svo sem ef raforkunotkun hans er þess eðlis að Orkusölunni er illkleift að afhenda umbeðið magn af orku, hann stendur í skuld við Orkusöluna, er skráður í vanskilum á vanskilaskrá, hefur verið úrskurðaður gjaldþrota o.þ.u.l. Hafni Orkusalan raforkuviðskiptum við viðskiptavin getur hann borið þá ákvörðun undir Orkustofnun.

9. Breytingar á viðskiptaskilmálum

Orkusalan áskilur sér einhliða rétt til að breyta viðskiptaskilmálum þessum. Breytingarnar skulu birtast í uppfærðum skilmálum á vefsíðu Orkusölunnar. Orkusalan tilkynnir breytingar á viðskiptaskilmálum þessum með hæfilegum fyrirvara áður en slíkar breytingar taka gildi og eru breytingarnar kynntar á vefsíðu félagsins.

10. Persónuvernd

Í því skyni að uppfylla skyldur sínar samkvæmt skilmálum þessum og lögum samkvæmt vinnur Orkusalan með tilteknar persónuupplýsingar um viðskiptavini. Öll vinnsla persónuupplýsinga hjá Orkusölunni er í samræmi við gildandi lög og reglur um persónuvernd, nú lög nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, sbr. einnig persónuverndarstefnu Orkusölunnar sem er aðgengileg á vefsíðu Orkusölunnar.

11. Lausn ágreiningsmála og varnarþing

Komi upp ágreiningur milli Orkusölunnar og viðskiptavinar þá skulu aðilar reyna að sætta ágreining. Verði sáttum ekki komið að skulu ágreiningsmál rekin fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

12. Gildistaka

Viðskiptaskilmálar þessir taka gildi 1. febrúar 2022 og koma að öllu leyti í stað áður gildandi skilmála.