Öryggis- og vinnuverndarstefna Orkusölunnar

Stefna Orkusölunnar er að skapa umhverfi þar sem öryggi, heilsa og vellíðan starfsfólks er í forgrunni. Við leggjum áherslu á að allt starfsfólk og aðrir aðilar sem vinna á vegum Orkusölunnar fari heilir heim, bæði á líkama og sál, eftir góðan vinnudag. Við viðurkennum að mannleg mistök eru óhjákvæmileg og leggjum áherslu á að hanna vinnukerfi og verklag sem lágmarka afleiðingar þeirra. Við viljum skapa menningu þar sem starfsfólk getur tjáð sig opinskátt um öryggismál án ótta við neikvæðar afleiðingar.

Við gerum áhættumat fyrir bæði dagleg störf og stórar framkvæmdir til að lágmarka áhættu og tryggja öruggt vinnuumhverfi. Starfsemi Orkusölunnar fer fram í samræmi við vottað öryggisstjórnunarkerfi skv. ISO 45001. Við tryggjum að lögum og reglugerðum í heilbrigði og öryggismálum vinnustaðarins sé fylgt og leggjum sérstaka áherslu á stöðugar umbætur í öryggismálum.

Markmið

Meginmarkmið Orkusölunnar er að draga úr alvarlegum slysum og byggja upp jákvæða vinnuverndarmenningu sem endurspeglast í allri starfsemi og vinnubrögðum. Til að ná því markmiði skuldbindur Orkusalan sig til þess að:

  • Tryggja öruggan vinnustað með góðum aðbúnaði og reglubundinni skoðun á vinnuaðstöðu til að lágmarka hættu á slysum.
  • Auka öryggisvitund með reglulegri fræðslu og þjálfun fyrir starfsfólk um aðbúnað, öryggi og hollustuhætti á vinnustað.
  • Stuðla að virku samráði við starfsfólk um öryggismál, þar sem það tekur virkan þátt í mótun og betrumbótum á öryggismálum.
  • Skrá og rannsaka öll slys, óhöpp og næstum því slys til að læra af reynslunni og koma í veg fyrir endurtekningu. Öryggisrannsóknir okkar miða að því að læra af reynslunni og bæta kerfið, ekki að finna sökudólga.
  • Bjóða upp á íþróttastyrk og heilsufarsmælingar til að hvetja starfsfólk til að stunda reglubundna hreyfingu og efla líkamlega og andlega heilsu.
  • Veita sálfræðistyrk til að styðja við andlega heilsu starfsfólks og tryggja þeim aðgengi að nauðsynlegri aðstoð þegar þörf krefur.
Samþykkt

Samþykkt af stjórn Orkusölunnar 25.03.2025