Mikilvægt fólk sem stjórnaði rafmagninu
Skeiðfossvirkjun stendur í Fljótum í Skagafirði og var tekin í notkun árið 1945. Rafveita Siglufjarðar byggði virkjunina sem RARIK keypti svo árið 1991, en hún er nú í eigu Orkusölunnar. Siglfirðingar fengu snemma á öldinni augastað á virkjun Fljótaár og árið 1935 var bæjarstjórn Siglufjarðar heimilað að reisa og reka raforkustöð þar og leggja háspennutaugar til Siglufjarðar. Framkvæmdir við Skeiðfossvirkjun I hófust sumarið 1942 en töluverðar tafir urðu vegna erfiðra aðdrátta í heimsstyrjöldinni og straumi var hleypt frá Skeiðsfossvirkjun til Siglufjarðar 29. mars 1945. Á árunum eftir 1960 var farið að huga að frekari virkjunarframkvæmdum við Fljótaá og hófst vinna við Skeiðfossvirkjun II 1974 en hún tók formlega til starfa árið 1976.
Kristján Sigtryggsson var stöðvarstjóri Skeiðfossvirkjunar í meira en 40 ár en hann lét af störfum nú um áramótin. Hann er fæddur árið 1957 á Siglufirði og gekk í barnaskóla og gagnfræðiskóla þar. Kristján var alltaf ákveðinn í því að fara í vélskólann og hafði sótt um í skólanum fyrir sunnan. Svo vildi það þannig til að árið sem hann kláraði gagnfræðiskólann, gýs í Vestmanneyjum og 1 og 2 bekkur vélskólans eru færðir á Siglufjörð. „Þannig slapp ég við að fara suður,“ segir Kristján. „Ég var þessi ár í vélskólanum á Siglufirði og fór á sjó á milli bekkja.“
Kristján ákvað líka ungur að hann langaði að vinna við Skeiðfossvirkjun. „Frá því að ég var tólf ára, ætlaði ég þangað. Mér fannst þetta svo mikilvægt starf. Þegar rafmagnið fór af fann maður fyrir því hvað það var mikilvægt fólk sem stjórnaði því,“ rifjar hann upp.
„Sá sem kenndi svo rafmagnsfræði í vélskólanum á Siglufirði var rafveitustjórinn á Siglufirði og þeir áttu Skeiðfossvirkjun. Ég var búin að ræða við hann um að mig langaði að vinna í virkjuninni en hann kemur svo til mín og segir að það vanti afleysingu á Skeiðsfoss, og framtíðarstarf sé í boði ef ég vilji. Þarna er ég 20 ára. Ég fór og vann í eitt ár en festi mig ekki alveg, leysti þó af öll sumur. Frá árinu 1981 var ég þar í fullu starfi.“
Allt gert með höndunum fyrstu árin
Kristján segir fyrstu árin í Skeiðfossvirkjun hafa verið mjög ólík þeim síðustu enda margt sem breyttist á þeim tíma. „Í upphafi var þetta eyjakerfi svokallaða sem þýddi að við vorum bara tengd við Ólafsfjörð, Siglufjörð og Fljótin, en ekkert tengd við landsnetið. Allt var gert handvirkt og þurfti að hugsa um rafmagnið frá morgni til kvölds. Við vorum þrír að vinna þarna og höfðum sérstakt fyrirkomulag, unnum frá þrjú á daginn til miðnættis. Svo fór sá heim og svaf heima með bjöllu, ef eitthvað myndi gerast. Fór svo aftur klukkan sex á morgnanna og var til klukkan þrjú daginn eftir. Svo átti hann tveggja daga frí. Þetta var í raun og veru mjög gott fyrirkomulag,“ segir Kristján.
Helstu breytingarnar í gegnum árin fjörutíu segir Kristján vera að allt fór frá því að vera handvirkt í að vera sjálfvirkt. „Þegar ég hóf störf gerðum við allt með höndunum en núna er öllu stjórnað í tölvunni. Áður fyrr þurfti að fylgjast með vélunum og taka eftir því ef eitthvað væri að bila. Nú kemur bara upp gluggi á skjánum.“
Aðspurður um eftirminnilegt atvik á ferlinum segist Kristján sérstaklega muna vel eftir einu sem kom upp árið 1996. „Önnur vélin var nýstandsett, hún var tekin í sundur, skipt um búnað og sett saman aftur. Á þessum tíma var stjórnbúnaðurinn fram í vélarsalnum en vélin fór 21 sinni út um nóttina vegna ísingar og þurfti alltaf að koma henni inn aftur. Að endingu var ekki hægt að setja hana inn aftur, því fyrst fór Fljótalínan út, svo línan til Ólafsfjarðar og svo til Siglufjarðar. Þannig að það var ekkert eftir nema að keyra rafmagn fyrir staðinn okkar. Ég held að ég geti fullyrt að þetta var ein mín versta nótt í vinnunni,“ segir Kristján. „Það var þó eitt sem ég gat huggað mig við. Einn samstarfsmaður minn lenti í svipaðri nótt árið 1960 þar sem allt rafmagnið fór út. Hann fór hins vegar heim eftir þessa löngu nótt og þá var þakið fokið af húsinu hans. Þannig að þetta var ekki svo slæmt hjá mér eftir allt,“ segir Kristján.
Annað eftirminnilegt atvik sem Kristján segir standa upp úr er þegar hjól úr annarri vélinni í virkjuninni hreinlega gufaði upp. „Þetta var á þeim tíma sem koparverð var mjög hátt. Í annarri vélinni hjá okkur var hjól úr kopar sem var komið tími á. Það var tekin ákvörðun um að senda það suður í viðgerð og var sent af stað með flutningabíl. En þá bara hvarf það einhverstaðar á leiðinni og skilaði sér aldrei til baka. Mögulega hefur einhver grætt vel á því,“ segir Kristján og brosir.
Góðar minningar frá Skeiðfossskógi
Kristján giftist eiginkonu sinni, Sigrúnu Svansdóttur árið 1982 og eignuðust þau tvo drengi. Hann segir virkjanalífið hafi farið mjög vel saman við fjölskyldulífið. „Vinnutíminn var í raun mjög þægilegur að því leyti, því maður gat alltaf skotist til þeirra og hafði inn á milli mikinn tíma fyrir börnin. Þegar strákarnir mínir voru að alast upp var svolítið um börn á svæðinu sem var mjög skemmtilegt.“ Annar sonur Kristjáns, Sigtryggur, fór svo sjálfur í vélskólann og er núna starfandi í Skeiðfossvirkjun líkt og faðir sinn. „Við unnum saman í mörg ár,“ segir hann og brosir.
Skeiðfossskógur hefur einnig sérstakan stað í hjarta Kristjáns en skógurinn var stofnaður í tilefni 75 ára afmæli rafveitu Siglufjarðar. „Í upphafi var mikill kraftur í gróðursetningunni og miklu plantað. Þar sem þetta voru rætur en ekki bakkaplöntur var ekki gert ráð fyrir að nema helmingurinn myndi lifa, því var plantað þétt. Svo varð raunin allt önnur og þetta lifði allt saman sem gerir það að verkum að skógurinn er mjög þéttur í dag.“
Kristján á góðar minningar af gróðursetningu skógarins og tímans sem hann hefur notið þar. „Við hjónin eyddum miklum tíma á svæðinu að gróðursetja. Við byrjuðum að gróðursetja árið 1984 þegar konan mín var kasólétt. Við vorum öll kvöld að koma þessu niður og eigum þannig mikinn þátt í skóginum. Við vorum líka í mikilli tilraunastarfsemi, prófuðum að setja niður alls kyns plöntur sem okkur datt ekki í hug að myndu lifa, en þær gerðu það flestar,“ segir Kristján.
Gengur sáttur frá borði
Aðspurður hvað það sé helst sem hann sakni við starfið, stendur svarið ekki á sér. „Það skemmtilegasta við þetta starf eru allir þeir einstaklingar sem ég hef kynnst í gegnum það. Það var mikil fjölbreytni í þeim sem komu í virkjunina og eins í því fólki sem hefur starfað þar.“
Það erfiðasta við starfið var hvað þetta var alltaf mikill kvíðavaldur. Þegar maður var niðurfrá, sérstaklega í vondum veðrum, var maður alltaf að bíða eftir því að eitthvað myndi gerast. Vont veður var ávísun á bras og það voru margar nætur sem ekkert var sofið.“
Kristján segist ganga sáttur frá borði eftir rúm 40 ár í starfi, og sérstaklega þar sem þetta er starf sem hann stefndi alltaf á. En hvað tekur við? „Ég er að klára að gera upp húsið mitt á Siglufirði en ég keypti hús beint á móti því sem ég fæddist í. Svo vil ég hugsa um barnabörnin, ferðast og helst ekki vinna neitt,“ segir Kristján að lokum.